0%
Exit Survey
 
 
Ágæti viðtakandi

Þakka þér fyrir að opna tengilinn á þessa rannsókn sem samþykkt er af Vísindasiðanefnd. Fyrst eru upplýsingar um rannsóknina og samþykkisblað. Loks eru spurningar sem tekur í mesta lagi um 15 mínútur að svara.

Þér er boðið að taka þátt í rannsókn á afleiðingum heilahristings meðal núverandi og fyrrum afreksíþróttakarla á Íslandi, á aldrinum 18 - 45 ára. 

Ábyrgðarmenn rannsóknarinnar sem þessi rannsókn er hluti af eru María K. Jónsdóttir, prófessor við sálfræðideild Háskólans í Reykjavík (HR), Hafrún Kristjánsdóttir dósent og deildarforseti íþróttafræðideildar HR og Helga Ágústa Sigurjónsdóttir, sérfræðilæknir og klínískur prófessor við Háskóla Íslands.  

Markmið rannsóknarinnar eru: 1) Að meta hlutfall þeirra íþróttakarla sem hafa fengið heilahristing og heilahristingseinkenni við íþróttaiðkun; 2) bera saman andlega líðan og lífsgæði þeirra sem hafa fengið heilahristing og þeirra sem ekki hafa slíka sögu; 3) meta hugræna færni hjá þeim sem hafa fengið heilahristing og bera saman við þá sem ekki hafa fengið heilahristing og 4) meta sjálfsmat á heilahristingi. 

Í fyrsta hluta rannsóknarinnar verður rafrænn spurningalisti sendur til karla á aldrinum 18-45 ára sem hafa keppt í tveimur efstu deildum handbolta, fótbolta og körfubolta, í efstu deild í íshokkí og á íslandsmóti í karate, boxi, MMA og taekwondo. 
Í spurningalistanum eru spurningar um heilahristingssögu, þunglyndiseinkenni, kvíða, lífsgæði og heilahristingseinkenni. Spurt verður um aldur, menntun, hjúskaparstöðu, íþróttagrein og stöðu á velli (þar sem það á við) og fjölda ára í íþrótt. 
Þessi fyrsti hluti er ekki nafnlaus. Nafn, sími og netfang verða skráð svo hægt sé að ná til þeirra þátttakenda sem fengið hafa heilahristing til að taka þátt í hluta tvö. 

Hluti þeirra karla sem svara fyrsta hlutanum halda áfram á stigi tvö í rannsókninni (tilviljun ræður þátttöku) og koma í viðtal í Háskólanum í Reykjavík. Þar verður tekið hálf-staðlað viðtal til að meta á nákvæmari hátt heilahristing/heilahristingsheilkenni og einnig verður gert taugasálfræðilegt mat og stutt greindarpróf (WASI-IS). Ætla má að þessi heimsókn taki um klukkutíma. Ætlunin er að þessi hluti fari fram sumarið 2021. 
Þátttaka felur ekki í sér áhættu nema hugsanlegt álag við að svara spurningalistum um líðan. Löng reynsla er fyrir notkun spurningalista af þessu tagi, án neikvæðra afleiðinga. Ef þátttakendur upplifa vanlíðan hafa þeir aðgang að Lindu Báru Lýðsdóttur, sálfræðingi (lindabl@ru.is) sem mun liðsinna þeim.

Vísindalegt gildi verkefnisins felst í því að sambærileg rannsókn hefur aldrei verið gerð á íþróttakörlum hérlendis. Við höfum þegar rannsakað konur en mikilvægt er að rannsaka bæði kynin til að meta hugsanlegan kynjamun en erlendar rannsóknir sýna mun á kynjum. Þátttaka þín er því mjög mikilvægt framlag til þekkingaröflunar á þessu sviði. Þess er og vænst að rannsóknin hafi hagnýtt gildi fyrir alla íþróttamenn svo og ÍSÍ. Þér ber að sjálfsögðu engin skylda til að taka þátt. Ef þú ákveður að liðsinna okkur geturðu hætt hvenær sem er án eftirmála. 

Vísindasiðanefnd gaf leyfi fyrir þessari rannsókn (VSN-17-183, 15. september 2020) og farið er að lögum um persónuvernd í einu og öllu við framkvæmd hennar. 

Með von um góðar undirtektir
Fyrir hönd rannsóknarhópsins

María K. Jónsdóttir, prófessor við sálfræðideild  Háskólans í Reykjavík
s. 861-7894 / mariakj@ru.is
 
Privacy & Data Security